„Ég sé fyrir mér viðamikið og krefjandi verkefni en að sama skapi mjög áhugavert," segir Ólafur Þór Hauksson, sýslumaður á Akranesi, sem ráðinn hefur verið sérstakur saksóknari vegna bankahrunsins.

Hann býst fastlega við því að fleiri verði ráðnir honum til aðstoðar. Fjöldinn fari þó eftir umfangi verkefnisins.

Ólafur Þór tekur við embættinu frá og með 1. febrúar næstkomandi. Sú skipan gildir í 23 mánuði en að því loknu verður embættið eftir atvikum lagt niður eða sameinað annarri ríkisstofnun.

Aðeins tveir sóttu um embættið eftir að umsóknarfrestur hafði verið framlengdur. Ólafur Þór segist hafa verið hvattur til þess að sækja um af „aðilum innan stjórnarráðsins." eins og hann orðar það. Hann hafi tekið sér umhugsunarfrest en síðan séð að hann hefði möguleika á því að taka þetta að sér.

Spurður hvort fengnir verði starfsmenn honum til aðstoðar, svarar hann: „Það liggur beint við að það sé engum manni ætlandi að vera einn í þessu. Það verður því hugað mjög bráðlega að fólki til að koma í þetta með mér."

Spurður hvort margir verði ráðnir honum til aðstoðar svarar hann því til að það ráðist af umfangi verkefnisins.