Ólafur Pálsson hefur verið ráðinn sem sölu- og markaðsstjóri Plaio. Mun hann stýra söluleiðum og sölusamningum á hugbúnaðarkerfum Plaio á alþjóðamarkaði, ásamt því að bera ábyrgð á uppbyggingu á alþjóðlegu söluteymi, þróun viðskiptasambanda og markaðssetningu félagsins. 

Ólafur hefur starfað sem sölustjóri hjá Bioeffect undanfarin ár. Þar á undan var hann framkvæmdastjóri Risk Medical Solutions og Lipid Pharmaceuticals. Hann er með meistaragráðu í fjármálum frá Monash Graduate School of Business í Melbourne í Ástralíu og BS gráðu í auglýsinga- og markaðsfræðum frá Edith Cowan University í Perth í Ástralíu.

Jóhann Guðbjargarson, framkvæmdastjóri Plaio:

„Við erum virkilega ánægð með að fá Ólaf til liðs við okkur. Hann hefur mikla reynslu af uppbyggingu söluleiða á erlendum mörkuðum og mun sú reynsla nýtast PLAIO gríðarlega vel við sölu á hugbúnaði okkar, sem snýr að hagkvæmri aðfangastjórnun í lyfjageiranum. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á erlendum mörkuðum, þar eru mikil tækifæri til sóknar og Ólafur verður lykilmaður í því verkefni.“ 

Plaio þróar, framleiðir og selur hugbúnað, skýjalausn, sem aðstoðar samheitalyfjafyrirtæki við að skipuleggja framleiðslu og hráefnisinnkaup og gerir þeim kleift að skipuleggja framleiðslu og hráefnisinnkaup á skilvirkan hátt með myndrænni framsetningu. Kerfið leggur grunn að sjálfvirknivæðingu framleiðsluskipulagningar á grunni bestunaraðferða og gervigreindar.