Dr. Ólafur Ísleifsson hefur tekið til starfa sem framkvæmdastjóri gæðamála við Háskólann á Bifröst. Hann tekur við starfinu af Signýju Óskarsdóttur, sem nýverið tók við starfi skólastjóra Grunnskóla Borgarness.

Fram kemur í tilkynningu að Ólafur mun leiða innra gæðamat Háskólans á Bifröst og undirbúa vinnu vegna ytra gæðamats á skólanum sem fram fer í mars 2015. Matið er framkvæmt af hópi erlendra sérfræðinga sem tilnefndir eru af gæðaráði háskólanna en innra mat Háskólans á Bifröst er lagt til grundvallar mati erlendu sérfræðinganna.

Ólafur Ísleifsson hefur lokið doktorsprófi í hagfræði frá Háskóla Íslands, meistaraprófi í hagfræði frá London School of Economics and Political Science og BS-prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Ólafur var um tíu ára skeið lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík og hefur að baki fjölþætta starfsreynslu á sviði fjármála og efnahagsmála á vettvangi Seðlabanka Íslands, Þjóðhagsstofnunar, forsætisráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.