„Á þessu ári þurfa að verða þáttaskil. Við skulum taka höndum saman, hefja nýja för, reynslunni ríkari, gagnrýnni í hugsun, vitrari vegna mistakanna og með hin góðu gildi í veganesti," sagði Ólafur Ragnar Grímsson í nýársávarpi sínu í dag. Honum var tíðrætt um aðstæður fólks; sagði biðraðir eftir mat smánarblett sem þyrfti að afmá. Um leið lagði hann áherslu á styrkleika þjóðarinnar og forsendur til uppbyggingar.

„Við eigum fagurt og gjöfult land, ríkulegar auðlindir, orku, sjávarfang, forðabúr vatns, matarkistur, hæfileikaríkt fólk, menntaðar kynslóðir, fjölþætta menningu, skapandi greinar, samfélag sem býr vel að hinu besta í tækni nýrrar tíðar," sagði Ólafur.

„Við erum til muna betur sett en þau sem komu á vettvang þegar Ísland var enn öðrum háð, þegar Jón Sigurðsson fór að vestan með tignarfjöll Arnarfjarðar greypt í sálu sinni, þegar Skúli Thoroddsen og Theodóra héldu frá Ísafirði hingað til Bessastaða mörkuð af glímunni við Hannes Hafstein, eða þegar Sveinn Björnsson kom nýkjörinn forseti frá Þingvöllum við Öxará.

Úr því að þessum kynslóðum tókst að skila glæstu ævistarfi, skapa Íslandi svo traustan sess í veröldinni að nú vill fjöldi þjóða sýna okkur vinsemd og margar sækjast ákaft eftir samstarfi þá hljótum við að geta sameinast um endurreisn, náð í krafti þjóðarvilja að greiða úr vandamálum sem bíða lausnar," sagði forseti Íslands.