Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sagði í sjónvarpsviðtali við Bloomberg í morgun að hann telji að almenningur á Íslandi eigi að hafa lokaorðið um samþykkt Icesave-samninga. Hann sagði Breta og Hollendinga hafa komist að því í dag að þeirra kröfur hafi verið ósanngjarnar. Þjóðirnar hafi nú komið meira til móts við Ísland en áður.

„Grundvallarspurningin er hversu langt við getum teygt okkur í að láta venjulegt fólk, bændur, sjómenn, kennara, greiða niður skuldir gjaldþrota banka í einkaeigu,“ sagði Ólafur.

Í viðtalinu segir Ólafur að hann telji að helsti munur á stöðu Íslands og Írlands í dag sé sú að hér hafi bönkunum verið leyft að fara gjaldþrot. Hér hafi yfirvöld ekki dælt fé inn í þá. Þá hafi krónan hjálpað til með gengisfalli sem styðji við útflutningsgeirann. Ólafur segir að krónan hafi verið hluti af vandanum fyrir hrun. Í dag styrki hún samkeppnisstöðu landsins.

Þá sagði forsetinn að viðræður við ESB um inngöngu Íslands haldi áfram og þar skipti fiskveiðar mestu máli fyrir landið.

Viðtalið má sjá hér .