Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands segir allt í lagi að setja þá kenningu fram að hann taki ákvarðanir á þeim grunni að hann njóti sín í sviðsljósinu. Hins vegar hafi hann verið lengi í sviðsljósinu og er búinn að fá nóg af því.

Ólafur Ragnar segir að það verði að hafa í huga að fórnarkostnaður forsetans af því að taka erfiðar ákvarðanir er mikill. Það þurfi ekki annað en að fara á netið til að sjá hvernig sumir gömlu stuðningsmenn forsetans hafi snúið við honum baki.

„ Það er alröng mynd að ég geri þetta til að komast í sviðsljósið“ segir Ólafur Ragnar sem er gestur Sigurjóns M. Egilssonar á Sprengisandi á Bylgjunni fyrir hádegi. Hann segir að hann hafi ekki vísað Icesave til þjóðarinnar til að öðlast vinsældir. Erfitt sé að hugsa sér hvar vinsældir lenda við slíka ákvörðun. Enginn forseti geti leyft sér að taka slíka ákvörðun eftir einhverjum vinsældarmælingum.