Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gaf sterklega í skyn að hann muni ekki bjóða sig fram aftur til forseta að þessu kjörtímabili loknu í setningarávarpi sínu til Alþingis í morgun.

„Þegar ég nú, samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér, set Alþingi í síðasta sinn,“ sagði Ólafur Ragnar í ávarpi sínu. Má lesa úr þessum orðum að hann ætli ekki að bjóða sig fram aftur, en vitaskuld getur hann þó endurnýjað umboð þjóðarinnar í næstu kosningum.

Í ræðu sinni sagði hann meðal annars að ekki ætti að kjósa um nýja stjórnarskrá samhliða næstu forsetakosningum þar sem eðlilegt væri að Íslendingar fengu að vega og meta nýja stjórnarskrá ótruflaðir af forsetakosningum.

Þá ætti ekki að endurskipuleggja vald forseta um leið og nýr forseti væri kosinn. Tryggja ætti að þjóðin viti hver staða forseta sé þegar hún gengur að kjörborðinu.

Fréttin var uppfærð kl. 12:07. Í fyrri útgáfu fréttarinnar var gengið út frá því að í ávarpi Ólafs Ragnars fælist að hann myndi ekki bjóða sig fram að nýju. Ekki er hins vegar hægt að slá því föstu.