Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir ekki hafa verið gert ráð fyrir því að hann mætti í afmælissamkomu Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem haldin var fyrr í sumar. Þetta kemur fram í viðtali Sölva Tryggvasonar við hann á sjónvarpsstöðinni Hringbraut sem sýnt verður í kvöld.

Ólafur Ragnar hefur hlotið nokkra gagnrýni fyrir að láta ekki sjá sig á samkomunni sem haldin var til heiðurs Vigdísi. Hann segir hins vegar að ekki hafi verið um opinbera athöfn að ræða.

„Mér finnst í raun og veru sérkennilegt að hlusta á þá gagnrýni vegna þess að þetta var ekki opinber afthöfn. Þetta var athöfn til þess að heiðra Vigdísi persónulega og ef að bæði ég og aðrir forráðamenn þjóðarinnar sem ekki mættu heldur, fyrir utan forseta Alþingis sem hafði þarna ákveðið hlutverk, hefðum mætt þá hefði verið skyggt á eðli samkomunnar.“

Ólafur Ragnar segir að með samkomunni hafi Vigdís verið heiðruð persónulega fyrir hennar mikla og sögulega hlutverk. „Mér fannst bara að hún ætti að fá að njóta þess ein og sér með fólkinu án þess að ég eða aðrir færum að koma á þann vettvang, enda var af hálfu skipuleggjanda ekki gert ráð fyrir því að við mættum.“