Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og Dagur B. Eggertsson, varaformaður flokksins sem jafnframt er formaður borgarráðs, brugðust hart við ummælum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands sem jafnframt er í framboði til áframhaldandi setu. Ólafur Ragnar var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og sagði þar m.a. Jóhönnu hafa snúist gegn sér eftir að hann vísaði Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Jóhanna [Sigurðardóttir] hefur aldrei fyrirgefið mér það, að ég tók þessa Icesave-ákvörðun, sagði Ólafur Ragnar í þættinum og vísaði til þess að í kjölfarið hafi orðið straumhvörf í samskiptum hans við Jóhönnu og Steingrím J. Sigfússon. Þá sagði hann Jóhönnu hafa talað gegn sér á flokkstjórnarfundi. Þótt hvesst hafi milli sín og Davíð Oddssonar, þegar hann var í forystu fyrir ríkisstjórnina, hefði hann að ýmsu leyti átt nánara samband við Davíð en Jóhönnu.

Jóhanna segir í tilkynningu sem hún sendi frá sér eftir þáttinn að forsætisráðherra muni ekki blanda sér í kosningabaráttuna.

„Mikilvægt er að sú barátta fari vel og málefnalega fram og umdeildum málum á vettvangi stjórnmálanna sé haldið aðgreindum frá forsetakosningum. Hverjum og einum frambjóðanda er auðvitað í sjálfsvald sett hvernig hann eða hún kýs að tjá sig um slík mál eftir atvikum.," segir í tilkynningunni.

Þá velti Dagur því upp í færslu á Facebook-svæði sínu hverju valdi að Ólafur Ragnar telji sig nú þurfa að standa vörð um kvótann og krónuna, hampa Davíð Oddssyni en sparka í Jóhönnu. Ummælin telur hann fremur líkleg til að valda sundrung en sameina.