Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands ætlar að gefa kost á sér til endurkjörs á þessu ári. Ólafur Ragnar hefur verið forseti frá árinu 1996 og hans þriðja kjörtímabili mun ljúka á árinu. Þetta kom fram í nýársávarpi forsetans.

„Það hefur veitt mér mikla gleði að vinna með ykkur að þessum verkum og ég mun ætíð meta mikils trúnaðinn sem þjóðin hefur falið mér. Sé það nú á nýju ári vilji Íslendinga að ég beri áfram þessa ábyrgð er ég fús að axla hana en veit um leið af eigin reynslu að embætti forseta Íslands fylgja ríkar skyldur. Enginn getur innt þær af hendi svo vel sé nema njóta trausts meðal þjóðarinnar,“ sagði Ólafur Ragnar

Forsetinn kom víða við í nýársávarpi sínu. Hann minntist Jónasar Hallgrímssonar og framlag hans til íslenskrar tungu í tilefni 200 ára fæðingarafmæli Jónasar.

„Jónas er enn brautryðjandi þótt aldir tvær séu liðnar frá æskuárum í Öxnadal. Hann sýndi okkur að frjóust verður þjóðarmenning þegar hún nýtir sér strauma heimsins; var sókndjarfur fyrir hönd íslenskunnar, leitaði endurnýjunar í tungutaki fyrri alda; ötull á vettvangi vísindanna en kappkostaði jafnframt að miðla þekkingu til almennings; unnandi náttúrunnar og um leið framfaramaður sem óf með ljóðum sterka strengi í sjálfsvitund Íslendinga.

Það er einstakt lán að geta á umbrotatímum sótt innblástur og leiðsögn í arfleifð slíks manns, að finna með hjálp Jónasar svörin við brýnustu spurningum nýrrar aldar. Þeir sem efast um að háskólar eða fyrirtæki geti áfram notað íslenskuna í daglegum önnum og halda því fram að enskan eða önnur heimsmál eigi leikinn, ættu að muna hvernig Jónas beitti íslenskunni, fangaði þekkingu í vísindum og tækni með snjöllum nýyrðum sem okkur eru nú svo tungutöm að flestum kemur á óvart að þau eru í raun gjöf Jónasar til Íslendinga, áminning um að íslensk tunga er tæk á allt, að móðurmálið býr yfir slíkum krafti til nýsköpunar að einungis hugarleti eða tískudaður eru afsökun fyrir því að veita enskunni nú aukinn rétt.“

Hvetur Íslendinga til að draga úr eyðslu

Ólafur Ragnar sagði orkuútrásina geta styrkt stöðu landsins ef rétt er á haldið. Hann segir hana tækifæri til aukinnar þróunar í jarðfræði, náttúruvísindum, verkfræði og öðrum tæknistörfum. Hann minntist einnig á velgengni banka og íslenskra fyrirtækja erlendis sagði það skapa vettvang fyrir athafnafólk og eins námsmenn sem sem sótt hafa þekkingu í fjármálum og viðskiptum við háskóla í ýmsum löndum.

Ólafur Ragnar minntist einnig á velferðarmál í ávarpi sínu. Hann sagði kapphlaupið um auð og eignir hafa um skeið verið svipmót tímans en hins vegar sé brýnt að efla velferðarkerfið. Hann lagði áherslu á fjölskyldugildin og spurði hvort það væri hin veraldlegu gæði eða fjölskyldustundir sem skiptu máli.

„Kannski er kominn tími til að við hægjum aðeins á kapphlaupinu, hefjum að nýju til vegs hófsemi og aðrar dyggðir sem byggðar eru á mannlegum gildum.

Þótt við höfum á stundum verið miklir eyðsluseggir Íslendingar og sú athafnasemi knúið aflvélar atvinnulífsins kann á komandi árum að vera skynsamlegt að venda sínu kvæði í kross, setja sparnað í öndvegi, gera aðhald og nýtni að aðalsmerki, nota áfram góða hluti í stað þess að kaupa sífellt eitthvað nýtt. Árangur Íslendinga í efnahagsmálum er að sönnu athyglisverður en of mikil eyðsla er veikur hlekkur. Sé ætlunin að tryggja þjóðinni stöðugleika verður að sýna gætni, fara varlegar í framtíðinni.

Við þurfum að festa í sessi gildismat sem byggt er á dyggðunum sem ömmur okkar og afar mátu mikils, fólkið sem kom Íslandi úr fátækt til góðra efna," sagð Ólafur Ragnar Grímsson í nýársávarpi sínu.