Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-samninginn reyndist vera afar góð ákvörðun fyrir lýðræðið, landið, efnahagsstöðu og fyrir samband Íslands við Breta og Hollendinga og heiminn.

Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands í viðtali við Wall Street Journal í dag þar sem hann ræðir um Icesave og mögulega inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Ólafur Ragnar telur ákvörðun sína um að setja málið í þjóðaratkvæði þá mikilvægustu á sínum ferli.

Hann býst við að atkvæðagreiðsla um nýjan samning fari fram á Alþingi síðar í þessum mánuði eða í byrjun þess næsta. Í viðtali við WSJ vill Ólafur ekki tjá sig að svo stöddu um efnisatriði samningsins og segist virða rétt þingsins til að ræða málið án aðkomu forsetans.

Gordon Brown á að biðjast afsökunar

Í viðtalinu eru rifjuð upp samskipti Breta og Íslendinga í kjölfar bankahrunsins, gagnrýni Ólafs Ragnars á matsfyrirtækin og orð breskra ráðamanna um að stuðningur við inngöngu Íslands í ESB gæti verið í hættu ef Icesave verði ekki samþykkt. Það var Paul Myners, viðskiptaráðherra Breta á þeim tíma, sem lét þau orð falla.

Ólafur Ragnar segir að viðbrögð Gordon Brown, þá forsætisráðherra Bretlands, hafi gert lítið til laga stöðuna. „Brown ætti að biðjast afsökunar á því að hafa sagt öllum heiminum og Ísland sé gjaldþrota, vilji hann vera háttvirtur maður,“ segir Ólafur Ragnar í viðtalinu.

Krónan helsta ástæða fyrir inngöngu í ESB

Ólafur segir að helsta ástæða fyrir umsókn Íslands inn í ESB hafi verið sú að það virtist ómögulegt að halda úti eigin gjaldmiðli til langs tíma. „En síðan þá höfum við horft á evruríkin berjast við hverja krísuna á eftir annarri. Það breytir myndinni.“ Ólafur segir það vissulega möguleika að Ísland gangi í ESB án þess að taka upp evru. Að lokum verði það þó fiskveiðistefnan sem ráði því hvort Ísland gerist aðili eða ekki.