Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Abdullah II, konungur Jórdaníu, fjölluðu um möguleika á nýtingu jarðhita í Jórdaníu á fundi þeirra í vikunni.

Ólafur Ragnar kom við í Amman, höfuðborg Jórdaníu, á leið sinni frá Bangladess, og þáði þá boð um að hitta konunginn í höll sinni, að því er fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.

„Á fundi forseta og konungs var fjallað um möguleika á nýtingu jarðhita í Jórdaníu en sérfræðingar frá landinu hafa numið við Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og konungurinn heimsótti virkjunina í Svartsengi þegar hann kom til Íslands [árið 2000],“ segir í tilkynningunni.

„Forseti lýsti hvernig þátttaka Íslendinga í jarðhitaverkefnum víða um heim hefur vaxið ört á undanförnum árum. Orkufyrirtæki, bankar og fjárfestingarsjóðir legðu nú aukna áherslu á slík verkefni og íslenskir verkfræðingar og vísindamenn væru að störfum víða um veröld. Viðskiptasendinefnd frá Íslandi er væntanleg til Jórdaníu í nóvember næstkomandi og taldi konungur kjörið að þá færu fram viðræður milli íslenskra og jórdanskra aðila. Útflutningsráð skipuleggur ferð viðskiptasendinefndarinnar.“

Ræddu framboðið til öryggisráðsins

Ólafur og Abdullah II ræddu einnig framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og og aukinn stuðning Íslendinga við málefni Palestínumanna sem meðal annars hefði komið fram í heimsóknum utanríkisráðherra Íslands, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, til Jórdaníu, Palestínu og Ísrael.

„Konungur fagnaði þessum áherslum og lýsti sig og stjórnvöld í Jórdaníu reiðubúin til ítarlegra samræðna og samvinnu við Íslendinga óháð því hvort Ísland næði kjöri í öryggisráðið,“ segir í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.