Birgitta Jónsdóttir telur það vera mjög brýnt að núverandi stjórnarskrá verði afnumin og ný sett í staðin. Hún segir jafnframt að ástæða þess að það hafi ekki þegar verið gert sé sú að stjórnmálamenn vilji ekki missa þau völd sem þeir hafi tryggt sér.

„Ástæðan fyrir því að það er mjög mjög mjög mjög mjög mikilvægt að við fáum nýja stjórnarskrá er í fyrsta lagi að nú er verið að vinna að auðlindaákvæðinu og það verður mjög mikill slagur um hvernig auðlindirnar verða túlkaðar þjóðinni í vil. Við erum með meirihluta sem að er ekki að fara að túlka það algjörlega þjóðinni í vil," segir hún í myndbandi frá Pírötum á Íslandi.

Birgitta segir jafnframt að æskilegt væri að stjórnmálaflokkar sem eru með minnihluta þingsæta á bak við sig eigi að geta leyst upp þingið og að tíu prósent þjóðarinnar ættu að geta gert kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslur. „Með nýrri stjórnarskrá þá erum við komin með málskotsrétt. Þá erum við komin með, að minnihluti þingsins getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu eða að þingið verði leyst upp. Nú erum við ekki með nein verkfæri. Í nýrri stjórnarskrá getur fólk kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, ef að tíu prósent þjóðarinnar kallar eftir því," segir Birgitta.

Raddir Íslendinga hundsaðar

Birgitta segir að núverandi stjórnarskrá henti Íslendingum alls ekki. Ný stjórnarskrá myndi hinsvegar gera það. „Í nýrri stjórnarskrá er verið að breyta og skilgreina betur hlutverk forsetans. Í nýrri stjórnarskrá er verið að tryggja þriðju kynslóðar upplýsingafrelsisákvæðið eins og er í sænsku [stjórnarskránni innsk. blm.]. Það er svo margt í henni. Þarna var verið að taka raddir þúsund íslendinga sem voru valdir af handahófi til þess að ræða um það hvernig samfélag við viljum vera. Það er verið að hundsa þetta samkomulag sem var unnið heildstætt. Ef fólk les þetta litla fallega kver þá skilur það um hvað þetta snýst," segir Birgitta.

Forsetinn hagi sér eins og kóngur

„Ástæða þess að núverandi stjórnarskrá virkar ekki fyrir Ísland er einfaldlega sú að við fengum þessa bráðabirgðastjórnarskrá fyrir 70 árum síðan sem endurunna stjórnarskrá frá Danmörku. Danska stjórnarskráin er miklu þróaðari heldur en okkar, það er svo erfitt að breyta henni. Það þarf að gera það þannig að þú gerir það einu sinni, heildstæð stjórnarskrá. Núna erum við bara með gloppótta stjórnarskrá frá Dönum. Þess vegna erum við með forseta sem að hagar sér eins og kóngur. Persónulega myndi ég vilja leggja þetta embætti af sko," segir Birgitta.