Tilkynnt var í Delhi í dag að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hlyti Nehru verðlaunin, æðstu viðurkenningu sem Indverjar veita. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.

Verðlaunin voru stofnuð í minningu Jawaharlal Nehru, leiðtoga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og fyrsta forsætisráðherra Indlands, en Nehru gegndi því embætti í um tvo áratugi.

Forseti landsins, frú Pratibha Devisingh Patil, mun síðar afhenda Ólafi Ragnari Grímssyni verðlaunin við hátíðlega athöfn í forsetahöllinni í Dehli að viðstaddri ríkisstjórn og forystusveit Indlands.

Auk viðurkenningarskjals og verðlaunagrips fylgir verðlaununum fjárupphæð sem nemur 5 milljónum indverska rúpía eða ríflega 9 milljónum íslenskra króna.

Meðal þeirra sem hlotið hafa Nehru verðlaunin eru Martin Luther King forystumaður í réttindabaráttu blökkumanna, Nelson Mandela leiðtogi Suður-Afríku, Móðir Teresa leiðtogi í mannúðar- og líknarstarfi, Helmut Kohl kanslari Þýskalands, Aung San Suu Kyi frelsisleiðtogi í Myanmar (Burma), Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar og framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna, Javier Perez de Cuellar og U Thant sem fyrstur hlaut verðlaunin árið 1965. Í fyrra var verðlaunahafinn Luiz Inacio Lula da Silva forseti Brasilíu.

Verðlaunin, sem formlega bera heitið Jawaharlal Nehru Award for International Understanding, eru veitt einstaklingum fyrir mikilsvert framlag til alþjóðlegrar samvinnu og vináttu milli þjóða.

Í yfirlýsingunni sem birt var í Delhi í morgun er vísað til hinnar nánu samvinnu Ólafs Ragnars Grímssonar við Indverja og indversk stjórnvöld allt frá því að hann heimsótti landið fyrst árið 1983. Á þessu ári hefði því vinátta hans við Indland staðið óslitið í aldarfjórðung.

Í yfirlýsingunni er auk þess vikið að forystustörfum Ólafs Ragnars Grímssonar á alþjóðavettvangi og þætti hans við að skapa Friðarfrumkvæði sex þjóðarleiðtoga á árunum 1984-89. Indira Gandhi, dóttir Jawaharlal Nehru, og sonur hennar, Rajiv Gandhi, voru þátttakendur í því frumkvæði, en þau gegndu bæði embætti forsætisráðherra á Indlandi.

Sendiherra Indlands á Íslandi, Mahesh Sachdev, kom til Íslands og gekk á fund forseta Íslands á Bessastöðum í dag, mánudaginn 7. apríl, til að tilkynna honum formlega um verðlaunaveitinguna og ræða dagsetningu og fyrirkomulag varðandi hina hátíðlegu athöfn í Delhi.