Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur þegið boð um að taka sæti í Þróunarráði Indlands, segir í fréttatilkynningu.

Ráðinu er ætlað að móta tillögur um á hvern hátt Indverjar geta styrkt efnahagslíf sitt og velferð þjóðarinnar án þess að umhverfi bíði varanlegt tjón af eða gæðum náttúrunnar verði stefnt í hættu. Slíkri sjálfbærri þróun er ætlaður forgangur í stefnumótun.

Þróunarráðið, sem hélt sinn fyrsta fund í Delhi í gær, skipa þekktir vísindamenn, sérfræðingar, stjórnendur rannsóknarstofnana og forystumenn á alþjóðavettvangi ásamt áhrifamönnum í indverskum þjóðmálum.

Meðal þeirra eru hagfræðingurinn Jeffrey Sachs, forstöðumaður Earth Institute við Columbia háskólann í Bandaríkjunum, James Speth prófessor við Yale háskólann í Bandaríkjunum, Björn Stigson forseti Alþjóðaviðskiptaráðsins um sjálfbæra þróun (World Business Council for Sustainable Development), Dr. R. K. Pachauri forstjóri tækni- og vísindastofnunarinnar TERI, Lalit Mansingh fyrrum sendiherra Indlands í Bandaríkjunum og indversku þingmennirnir Suresh P. Prabhu og Jyotiraditya Scindia.

Meðal þeirra verkefna sem Þróunarráðið mun fjalla um á næstunni er vatnsbúskapur Indverja, en bráðnun jökla og íss í Himalayafjöllum ógnar lífskjörum hundruða milljóna Indverja vegna þeirra breytinga sem þessi þróun hefur á vatnsmagn í meginfljótum Indlands.

Þróunarráðið, sem á ensku ber heitið India Council for Sustainable Development, mun skila tillögum sem teknar verða til umfjöllunar af indverskum ráðamönnum og stofnunum á ólíkum sviðum þjóðlífsins.