Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mun sitja fyrir svörum í Newsnight-þættinum á BBC í kvöld. Þar mun hann í fyrsta skipti mæta í viðtal við fjölmiðil eftir að hann synjaði því að skrifa undir Icesave-lögin svokölluðu. Ólafur Ragnar hefur ekki gefið neinum innlendum fjölmiðli tækifæri á viðtali síðan að hann synjaði lögunum í gærmorgun.

Umsjónarmaður Newsnight er Jeremy Paxman sem er þekktur fyrir að vera afar harðsnúinn spyrill. Í kynningu á þætti kvöldsins sem Paxman sendi frá sér fyrir skemmstu kemur fram að Ólafur hafi í gær hafnað frumvarpi sem „hefði endurgreitt Bretum og Hollendingum fyrir að greiða út til innstæðueigenda fallins íslensks banka.“

Þátturinn verður sýndur klukkan 22.30 í kvöld á BBC.