Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sagði í samtali við CNBC sjónvarpsstöðina í gærkvöldi að Íslendingar munu minnast Gordons Brown forsætisráðherra Bretland næstu aldirnar vegna framkomu hans í Icesave-deilunni. Ólafur sagði gremju Íslendinga beinast að því hvernig Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn íslenskum stjórnvöldum og Seðlabankanum og settu þar með vinaþjóð og stofnaðila NATO í flokk með talibönum. Í framhaldinu hefði Brown sagt við alþjóðlegar sjónvarpsstöðvar að Íslnd væri gjaldþrota. Það væri algjör vitleysa og ábyrgðarlaust af honum að halda því fram. Í kjölfarið hefðu fyrirtæki um allan heim, sem áttu í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, lokað á viðskipti sín og aukið frekar á vandann.

Ólafur Ragnar sagð það grundvallarspurningu hvað mikið væri hægt að leggja á herðar íslenskra skattgreiðenda vegna falls eins banka. Greiðslurnar sem Bretar og Hollendingar krefðust jafngilti því að 700 milljarða punda reikningur yrði sendur breskum skattgreiðendum. Ábyrgðin væri ekki eingöngu Íslendinga heldur líka samevrópsk. Það væri meðal annars niðurstaða virtra fræðimanna í Evrópurétti.

Ólafur Ragnar er nú á Alþjóða efnahagsþinginu (World Economic Forum) í Davos í Sviss. Viðtalið var tekið þar ytra og má nálgast það hér á vefsíðu CNBC .