Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson mun í þessari viku taka þátt í Heimsráðstefnu um framtíð orkumála, World Future Energy Summit, sem haldin er í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 20.-22. janúar.

Í för með forseta eru Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, embættismenn frá iðnaðarráðuneyti, utanríkisráðuneyti og forsetaembættinu og fjölmargir fulltrúar íslenskra fyrirtækja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skrifstofu forsetans.

Ólafur Ragnar mun þvínæst fara í opinbera heimsókn til Katar. Það verður í fyrsta sinn sem forseti Íslands fer í opinbera heimsókn til ríkis í arabaheiminum. Heimsóknin til Katar stendur dagana 22.-25. janúar.

Í tilkynningunni kemur fram að heimsráðstefnan um framtíð orkumála sem haldin er í Abu Dhabi er hin fyrsta sinnar tegundar.

Þá segir að Abu Dhabi hefur orðið eitt af auðugustu löndum heims í krafti olíuauðlinda sinna og hefur ákveðið að ráðstafa verulegum hluta þeirra tekna til að efla samvinnu um menntun, vísindi og fjárfestingar í hreinum orkulindum víða um heim.

Til ráðstefnunnar er boðið þjóðarleiðtogum, ráðherrum, áhrifamönnum í alþjóðlegu viðskiptalífi, stjórnendum banka og orkufyrirtækja og fjölda vísindamanna og sérfræðinga. Margir áhrifamenn frá arabalöndunum sækja ráðstefnuna.

Ólafur Ragnar flytur ræðu á opnunarfundi ráðstefnunnar og tekur þátt í umræðum. Þá mun Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra einnig flytja ræðu á ráðstefnunni.

„Forseti situr einnig, ásamt forseta Djíbútís, Ismail Omar Guelleh, sérstakan kynningarfund sem haldinn verður í Abu Dhabi um jarðhitasamvinnu Íslands og Djíbútís. Lagður var grundvöllur að þeirri samvinnu í heimsókn forseta Djíbútís til Íslands í febrúar í fyrra. Við það tækifæri var undirritaður samningur Orkuveitu Reykjavíkur við stjórnvöld í Djíbútí um rannsóknir og nýtingu jarðhita sem gerbreytt gæti orkubúskap þessa fátæka Afríkuríkis,” segir í fréttatilkynningunni.

Opinber heimsókn forseta til Katar hefst með hátíðlegri móttökuathöfn síðdegis þriðjudaginn 22. janúar. Á dagskrá heimsóknarinnar eru viðræðufundir með þjóðarleiðtoga Katar Hamad Bin Khalifa Al Thani og öðrum forystumönnum landsins og þátttaka í samræðum um tækifæri smárra ríkja í hagkerfi 21. aldar.

Þá munu forseti og íslenska viðskiptasendinefndin hitta fulltrúa fyrirtækja í Katar, en Útflutningsráð hefur annast undirbúning þeirra funda.

Forseti mun auk þess taka þátt í hádegisverði í boði Kaupþings og heimsækja skrifstofur bankans. Þá mun forseti kynna sér starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera.