Jóhanna [Sigurðardóttir] hefur aldrei fyrirgefið mér það, að ég tók þessa Icesave-ákvörðun, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og nú forsetaframbjóðandi, í viðtali á Sprengisandi fyrir hádegi í dag. Hann sagði það einsdæmi að formaður stærsta ríkisstjórnarflokksins hefði talað gegn sitjandi forseta á flokkstjórnarfundi síns eigin flokk og vísaði þar til ummæla Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ólafur Ragnar sagði að það hefðu orðið straumhvörf í samskiptum hans við Jóhönnu og Steingrím J. Sigfússon eftir að hann synjaði Icesave-samningunum staðfestingar og málið fór í þjóðaratkvæði. Þótt það hefði hvesst milli sín og Davíð Oddssonar, þegar hann var í forystu fyrir ríkisstjórnina, hefði hann að ýmsu leyti átt nánara samband við Davíð en Jóhönnu.

Ólafur sagði að það kæmu stundir að forsetinn þyrfti að taka ákvarðanir sem gerðu það að verkjum að hann eignaðist sína hatursmenn. Forseti sem hugsaði bara um vinsældir, og væri upptekinn af því frá degi til dags, væri að bregðast fólkinu.

Hann sagði að fróðlegt væri að spyrja þá, sem gagnrýndu hann hvað harðast í Icesave-málinu, hvort það hefði verið rangt að fella samninginn.