Laxafoss eignarhaldsfélag og sjóðurinn MF2 í stýringu hjá Ísafold Capital hafa fest kaup á Exeterhouse ehf., rekstraraðila Exeter hótels á Tryggvagötu 12-14, og Tryggvagötu ehf., sem á fasteignina sem hýsir hótelið. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem hefur heimilað kaupin.

Seljandinn er fasteignaþróunarfélagið Festir, sem er í eigu Ólafs Ólafssonar og eiginkonu hans, Ingibjargar Kristjánsdóttur. Festir átti allt hlutafé Exeterhouse, sem var stofnað á síðasta ári, og fór með 60% hlut í Tryggvagötu ehf.

Eignir Tryggvagötu ehf. námu 3,8 milljörðum króna í lok síðasta árs, eigið fé var 494 milljónir og skuldi 3,3 milljarðar. Í ársreikningi, sem var undirritaður í lok ágúst, segir að félagið hafi rift leigusamningi við leigutaka á árinu 2020 og vinnur að gerð leigusamnings við nýjan rekstraraðila.

Kaupsamningarnir fela í sér að MF2 eignast 60% hlut í Tryggvagötu ehf. og 49,9% af útgefnu hlutafé í Exeterhouse. Þá mun Laxafoss eignast 50,1% hlut í Exeterhouse en fyrir átti Laxafoss 40% af hlutafé í Tryggvagötu á móti Festi. Í samrunaskrá kemur fram að Laxafoss og MF2 hyggjast fara með sameiginleg yfirráð yfir félögunum tveimur.

Laxafoss er dótturfélag Laxamýri sem er í eigu Hjalta Gylfasonar og Jónasar Más Gunnarssonar, eigenda verktakafyrirtækisins Mannverks. Laxafoss er eignarhaldsfélag í byggingartengdum iðnaði og fer með bein yfirráð yfir sex félögum, ekkert þeirra í hótelrekstri.

Í samrunaskrá segir að tilgangur MF2 með kaupunum er að auka fjölbreytni í eignasafni sjóðsins. Þá hyggst sjóðurinn styðja við stjórnendur og rekstur Tryggvagötu og Exeterhouse. Markmið Laxafoss með kaupunum er sagður vera að efla rekstur félaganna.