Ólafur Steinn Guðmundsson, fjárfestir og stjórnarmaður í Marel,  fjárfesti nýverið í veitingahúsakeðjunni Gló og hefur tekið sæti í stjórn fyrirtækisins. Ólafur hefur verið búsettur í Bandaríkjunum um langa hríð þar sem hann hefur starfað innan lyfja- og líftæknigeirans.

Gló hyggst breyta einum af veitingastöðum sínum hér á landi í vegan stað skömmu eftir páska að sögn Birgis Þórs Bieltvedt, sem er aðaleigandi Gló ásamt eiginkonu sinni, Eygló Björk Kjartansdóttur.

Gló opnaði á síðasta ári veitingastaði í Magasin du Nord og Tívolíinu í Kaupmannahöfn. Félagið fékk nýlega lífrænt gullmerkið í Danmörku þar sem 90-100% af matnum sem fyrirtækið selur í Danmörku er lífrænn.

„Á Íslandi er erfitt að ná þessu. Við höfum verið að færa okkur í átt að vera eins lífræn og við getum. Hversu langt við komumst með það verður bara að koma í ljós. Við erum til dæmis að prófa að sendingu á sama birgjanum og við erum með í Danmörku á lífrænu grænmeti og ávöxtum,“ segir Birgir.