„Það er einmitt á verksviði innanríkisráðherra að gæta þess að Íslandspóstur fari að lögum, eftirlitið með fyrirtækinu sé í lagi og að PFS sinni hlutverki sínu. Þeirri ábyrgð er ekki hægt að vísa neitt annað.“ Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í pistli sem hann skrifaði í Viðskiptablaðið sem kom út í síðustu viku.

Þar vísar hann til viðtals Viðskiptablaðsins við Ólöfu Nordal innanríkisráðherra þar sem hún var meðal annars spurð hvort hún hyggðist láta gera úttekt á málefnum Íslandspósts. Vísaði hún þá á fjármálaráðherra í því samhengi og sagði ómögulegt fyrir hana að stíga inn á það svið.

Ólafur segir að innanríkisráðherra væri hins vegar ekki að fara inn á svið fjármálaráðherra með því að láta gera gagngera úttekt á rekstri Íslandspósts. Hann segir að bæði umboðsmaður Alþingis og úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála séu þeirrar skoðunar að Póst- og fjarskiptastofnun hafi farið út fyrir valdsvið sitt og ekki rækt eftirlit sitt með Íslandspósti nægilega vel.

„Það er miklu nær að hún gangi inn á svið fjármálaráðherrans með því að leggja til að fyrirtækið sé einkavætt. Á því leikur hins vegar enginn vafi að á verksviði innanríkisráðherra er að gæta þess að farið sé að lögum og reglum um póstmál. Henni er því ekkert að vanbúnaði,“ segir Ólafur.

Pistil Ólafs má lesa í heild sinni hér.