Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri 24stunda, hefur verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins og aðalritstjóri Árvakurs hf. frá og með 2. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árvakri.

Sama dag lætur Styrmir Gunnarsson af starfi ritstjóra Morgunblaðsins fyrir aldurs sakir. Styrmir Gunnarsson hefur verið ritstjóri Morgunblaðsins frá 1972, en hann kom fyrst til starfa á Morgunblaðinu sem blaðamaður 2. júní 1965.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri 24 stunda frá 2. júní, en hún hefur verið fréttastjóri blaðsins frá haustinu 2006.

„Það er markmið okkar að í miðlum Árvakurs fái lesendur áreiðanlegri og dýpri umfjöllun en völ er á annars staðar í íslenskum fjölmiðlum og jafnframt skemmtilega skrifað efni og fjölbreyttar skoðanir,“ segir Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri.

„Breytingar munu eiga sér stað í skrefum á næstu mánuðum. Við ætlum að skerpa á sérstöðu Morgunblaðsins sem virtasta dagblaðs á Íslandi og langöflugasta áskriftarblaðsins. Við munum auka samstarf Morgunblaðisins og 24 stunda við mbl.is og jafnframt auka samstarf á milli blaðanna í t.d. íþróttafréttum og viðskiptafréttum. Hins vegar verður líka áfram heilbrigð samkeppni á milli blaðanna um fréttir, sem kemur lesendum til góða.“