„Það ætti ekki að koma á óvart að þetta eru mörg mál,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, er með stöðu sakbornings í tólf málum sem embættið er með til rannsóknar. Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, óskaði upplýsinga um það við þingfestingu Aurum-málsins í síðustu viku hvað umbjóðandi sinn tengist mörgum málum og krafðist þess að þau verði tekin saman í eitt þegar rannsókn lýkur.

Lárus hlaut níu mánaða dóm vegna umboðssvika í Vafningsmálinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur á milli jóla og nýárs. Vafningsmálið snérist um 10 milljarða króna lán til Milestone. Í Aurum-málinu er Lárus ákærður vegna 6 milljarða króna láns Glitnis til félags sem keypti hlut Fons, félags Pálma Haraldssonar, í bresku skartgripakeðjunni Aurum Holding sumarið 2008. Matsmenn komust að þeirri niðurstöðu í fyrra að verðmæti hlutabréfa skartgripakeðjunnar hafi á sama tíma numið 464 milljónum króna. Glitnir hafi því greitt 13-falt verð fyrir hlutinn. Af kaupverðinu fengu þeir Pálmi og Jón Ásgeir Jóhannesson sinn hvorn milljarðinn. Jón Ásgeir nýtti fjármunina til að greiða upp yfirdráttarlán.

Ólafur segir upplýsingarnar hafa komið fram að kröfu verjanda Lárusar og vill ekki svara því hvort fleiri og hvaða einstaklingar tengjast jafn mörgum málum hjá embætti sérstaks saksóknara en Lárus.

„Þeir eru flestir tengdir nokkrum málum. Ég veit ekki hvort aðrir sakborningar kæri sig um umfjöllun af því tagi,“ segir hann.