„Ég er kannski ekki búinn að ákveða mig." Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, spurður að því hvort hann væri búinn að gera upp hug sinn varðandi það hvort hann hygðist bjóða sig fram sem forseta að nýju. Ólafur segist finna fyrir þrýstingi um að bjóða sig fram aftur. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

„Við ræðum þetta, við Dorrit og fjölskyldan. Þetta er ekki bara spurning um mig, þetta er spurning um hana og dætur mína,“ var haft eftir Ólafi Ragnari. „Allir þeir sem vilja að ég haldi áfram, sem eru greinilega margir og víða, ég fann það bara á landsleiknum í gær, þegar ég mæti í skóla og annarstaðar er alltaf að koma fólk að mér og segja að ég eigi að halda áfram, það sýnir mér að þetta er í hugum margra," bætti Ólafur við.

Ólafur segist munu tilkynna um endanleg áform sín í nýársávarpi sínu. Hann segir ummæli við þingsetningu Alþingis um að hann væri að setja þingið í síðasta skipti ekki mega leggja að jöfnu að hann hefði ákveðið að bjóða sig ekki fram að nýju.