Virðing hf. og Ólafur Wernersson, sem eiga samtals 54,54% hlut í B-deild stofnsjóðs Sláturfélags Suðurlands vilja að greiddur verði meiri arður til B-hluthafa en stjórn félagsins hefur lagt til.

Stjórn SS leggur til að greiddur verði 14,5% arður af B-deild stofnsjóðsins og þar af verður verðbótaþáttur upp á 4,5%. Alls er um að ræða 26,1 milljón króna. Virðing og Ólafur, sem er bróðir þeirra Karls og Steingríms Wernerssona, vilja hins vegar að greiddur verði 15% arður á höfuðstól hluta í B-deild auk arðs vegna verðbóta. Í raun eru Virðing og Ólafur því að krefjast um 5% hærri arðs en stjórnin leggur til, eða um 35 milljóna króna í heild.

Hjalti H. Hjaltason, fjármálstjóri SS, segir í samtali við vb.is að Virðingu og Ólafi sé frjálst að leggja þessa tillögu til, en í raun gangi hún lengra en samþykktir félagsins heimili. „Þeir mega leggja þetta til en hafa ekki rétt á að krefjast þessarar hækkunar á arðgreiðslu. Nema að svo ólíklega fari að aðalfundurinn samþykki tillöguna þá verður hún ekki að veruleika.“

Aðalfundur SS fer fram þann 22. mars næstkomandi.