Einstaklingur sem innir af hendi vinnu í þágu fyrirtækis í efnahagslegri starfsemi gegn því að fá t.a.m. fæði og húsnæði, ber að telja slíkt fram til skatts sem tekjur að mati Ríkisskattstjóra. Kemur þetta fram í skriflegu svari embættisins við fyrirspurn ASÍ. Segir Ríkisskattstjóri að Fyrirtækinu sé jafnframt skylt að gera grein fyrir þessum gjöldum og halda eftir og skila viðeigandi sköttum og gjöldum af peningaverðmati hlunnindanna líkt og gert er af hefðbundnum launum.

Í svarinu segir jafnframt að fyrirtæki í efnahagslegri starfssemi sem þiggi vinnuframlag einstaklings án þess að greiða fyrir pening eða hlunnindi beri að telja slíkt fram sem skattskylda gjöf og að miða skuli við gangverð þeirrar vinnu sem um ræði hverju sinni sem í öllu falli sé ekki lægra en lágmarkskjör kjarasamninga.

Í áliti ASÍ um ólaunaða vinnu segir að algengast sé að um sé að ræða erlend ungmenni og að vinnan sé hluti af upplifuninni eða einhvers konar ævintýramennska. „Ísland er dýrt land að heimsækja og fæði og uppihald fyrir vinnuframlag virkar eflaust fyrir ungmenni með ævintýraþrá sem ágætis leið til að fjármagna Íslandsdvöl.“

Segir ASÍ að ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði í hagnaðarskyni, oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, feli í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og standist hvorki kjarasamninga né lög.