„Markmiðið með þessum fyrsta leik okkar er að þróa einfalda vöru sem auðveldlega er hægt að selja á mörgum mismunandi tölvum og sölurásum, eða „platforms“ á ensku. Það teljum við góða leið til að fjármagna draumaverkefnin okkar,“ segir Björn Jónsson einn stofnanda leikjafyrirtækisins Porcelain Fortress.

„Við stefnum á að taka inn 8.000 dollara á kickstarter til að klára leikinn. Tilgangur herferðarinnar er ekki að safna peningum heldur búa til kjarna viðskiptavina. Auðvitað er möguleiki að við endum á að taka meira inn hérna en það er í raun bara bónus,“ segir Björn Jónsson, einn stofnenda Porcelain Fortress sem hefur söfnun fyrir leik sinn, No Time to Relax, á vefsíðunni Kickstarter í dag.

„Það má segja að leikurinn No Time to Relax sé Hættuspilið okkar, en CCP gáfu það út á sínum tíma til að fjármagna gerð EVE Online. Stefnan er að hann komi út á Steam í febrúar. Ákveðið var að búa til tölvuleik sem teymið gæti klárað á einu ári og þannig sýnt fram á getu okkar til að klára vöru og selja hana. Við hóflega áætlum að selja í það heila um 50.000 eintök af leiknum. Það ætti að skila okkur í kringum 50 milljónum króna. Það er svo nóg til að keyra fyrirtækið áfram í 1-2 ár en það kostar um 30 milljónir að reka fyrirtækið, í núverandi mynd, á ári.“

Björn segir félagið vera að skoða frekari fjármögnun fyrir metnaðarfyllri verkefni sem verið er að vinna að. „Félagið var stofnað í byrjun árs 2017 og fengum við styrk frá Tækniþróunarsjóði upp á 20 milljónir til tveggja ára fyrir verkefnið Language Tree, sem er næsti leikur sem við gefum út. Þar erum við að blanda saman tölvuleikjum og áhuga á Japan, bæði fyrir tungumálinu og menningunni. Þar erum við að vinna með sýndarveruleika og þrívíddartækni meðan þessi leikur er með mun einfaldara viðmót sem kallast á við eldri kynslóðir tölvuleikja.“

Partýleikur sem minnir á Sims

Björn segir mikinn húmor einkenna leikinn. „Ég hef lýst leiknum sem Sims níunda áratugarins, þótt hann sé ekki alveg jafnflókinn, en þetta er hugsað meira sem partýleikur fyrir þig og vini þína. Hann snýst um að þú reynir að lifa venjulegu lífi, byrjar í lélegri íbúð með 200 dali í vasanum, ómenntaður. Þú kannski byrjar á því að fá þér vinnu á hamborgarstað og svo reynirðu að vinna þig upp í lífinu.

Þetta er náttúrulega allt svolítið ýkt, teiknimyndalegt og hrátt en teiknarinn okkar, Sigmundur B. Þorgeirsson, er aðalhönnuðurinn á útlitinu. Svo er alltaf eitthvað hræðilegt að gerast fyrir þig. Hver leikur er stuttur og er hægt að spila hann bæði yfir netið eða til skiptis á sömu tölvunni, en að sjá hvað hinir eru að gera getur verið stór hluti af skemmtuninni. Svo er líka hægt að safna stigum í keppni við tölvuna. Hann er innblásinn af klassískum tölvuleikjum eins og Jones in the Fast Lane sem aldrei hefur verið endurgerður og borðspilinu Game of Life.“

Segja má að félagið taki þátt í öldu nostalgíu fyrir öllu sem einkenndi seinni hluta síðustu aldar sem nú ríður yfir. „Við erum tölvuleikjaspilarar af gamla skólanum sem spiluðum alla þessa klassísku leiki, á Nintendo og þess háttar. Svo það má segja að við séum sjálfir markhópur leiksins,“ segir Björn.

„Það tók okkur smá stund að koma starfseminni í núverandi horf, en við fórum í gegnum Startup Reykjavík fyrsta sumarið sem hjálpaði okkur mikið til að fá mynd á meginþemað hjá okkur. Þá bjuggum við til þetta skemmtilega og lýsandi slagorð: „We make the games of yesteryear with the technology of tomorrow“. Þannig að við lítum svolítið til leikjanna sem við vorum að spila í gamla daga en nýtum nýjar hugmyndir í leikjahönnun og nýja tækni til að gera þá betri.“