Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt frumvarp um björgun fjárfestingalánasjóðanna Fannie Mae og Freddie Mac með 72 atkvæðum gegn 13. Eins og fjallað hefur verið um er lögunum ætlað að blása lífi í bandarískan húsnæðismarkað, en Fannie Mae og Freddie Mac lána út eða baktryggja um helming allra bandarískra húsnæðislána.

Búist er við að George Bush staðfesti lögin í næstu viku. Í frumvarpinu er kveðið á um aðgang Fannie Mac og Freddie Mae að lánalínum, auk þess sem fjármálaráðherra Bandaríkjanna fær vald til að kaupa hluti í fjárfestingalánasjóðunum telji hann þörf á, til að tryggja að þeir hrynji ekki.

Húsnæðisverð hefur lækkað mikið víða í Bandaríkjunum að undanförnu og nauðungarsölur jukust mikið þar í landi á 2. ársfjórðungi.