Á miðvikudag tókst repúblíkönum í öldungadeild bandaríska þingsins að fá samþykkt frumvarp um 39,7 milljarða Bandaríkjadala niðurskurð ríkisútgjalda á næstu fimm árum. Hins vegar tókst þeim ekki að fá framlengingu hinna svokölluðu Föðurlandslaga samþykkta að fullu né heldur frumvarp um olíuleit á friðuðum svæðum í Alaska.

Varaforseti Bandaríkjanna, Dick Cheney, stytti ferð sína til Mið-Austurlanda og Asíu til að vera viðstaddur atkvæðagreiðsluna enda réð atkvæði hans úrslitum um að niðurskurðarfrumvarpið fékkst samþykkt.

Þrátt fyrir að demókrötum hafi tekist að tefja lögleiðingu frumvarpsins er niðurstaða atkvæðagreiðslunnar talinn sigur fyrir Bush forseta sem lagt hafði áherslu á að frumvarpið fengist samþykkt.

Demókrötum tókst að koma í veg fyrir að samþykkt yrði að leyfa boranir eftir jarðolíu í Alaska en frumvarpið hafði verið tengt 453 milljarða dala frumvarpi um útgjöld til varnarmála.

Frumvarpið um boranirnar var forgangsmál fyrir forsetann sem telur að það gæti orðið til þess að auka framboð á olíu innanlands. Margir demókratar hafa lengi haldið því fram að olíuleitin muni skaða viðkvæmt lífríki svæðisins.

Á miðvikudag var einnig samþykkt framlenging nokkurra grundvallaratriða Föðurlandslaganna sem áttu að falla úr gildi í lok ársins. Demókratar vilja að lögin verði endurskoðuð og ýmsir meðal repúblíkana hafa gert athugasemdir við að lögin skerði mannréttindi almennings.