*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Erlent 22. nóvember 2021 19:04

O‘Leary í hart við heitfenga Rússa

Forstjóri Ryanair fékk úrskurðaðar bætur frá rússneska sendiráðinu á Írlandi vegna „óhóflegrar upphitunar“ á leiguíbúð.

Ritstjórn
Michael O'Leary, forstjóri Ryanair
epa

Hinn litríki forstjóri írska flugfélagsins Ryanair, Michael O‘Leary, á í deilum við rússneska sendiráðið á Írlandi. Fyrirtæki í hans eigu sakar Rússana um „óhóflega upphitun“ sem hafi farið illa með tréverkið í húsi sem var í leigu hjá sendiráðinu. The Times greinir frá.

Rússneska sendiráðið hefur verið úrskurðað af kærunefnd húsamála á Írlandi til að greiða tæplega 20 þúsund evrur, eða sem nemur nærri 3 milljónum króna, vegna skemmda „umfram hefðbundins slits“ á húsinu sem staðsett er í Dublin. Auk þess fær O‘Leary að halda tryggingargreiðslu að fjárhæð 11 þúsund evra frá sendiráðinu.

Fulltrúi O‘Leary hélt því fram að skemmdir á tréverkinu í nýlega uppgerða húsinu, sem O‘Leary keypti fyrir 5,9 milljónir evra árið 2009, megi rekja til þess að hitastillirinn hafi stöðugt verið stilltur á 27-29 gráður á meðan Rússarnir leigðu húsið. Enginn önnur skýring væri trúverðug að hans sögn þar sem allt tréverkið hafi einungis verið um tuttugu ára gamalt og því ólíklegt að viðurinn hafi skemmst vegna hefðbundins slits.

Rússarnir áfrýjuðu úrskurðinum og vísuðu meðal annars til diplómatafriðhelgi. Sendiráðið hafnaði ásökunum um að hitastillirinn hafa sífellt verið stilltur yfir 27 gráðum og hélt því einnig fram að hitastillirinn hafi bilað. Þá hafi verið erfitt að stýra hitanum í húsinu að sumri til.

Sendiráðið staðhæfði einnig fram að fulltrúar leigusalans hafi einungis heimsótt eignina tvisvar eða þrisvar sinnum á meðan leigutímabilinu stóð yfir og í þau skipti ekki kannað hitastillinn. Þá bentu Rússarnir á að í leigusamningnum sé kveðið á um að halda skuli hita á rauðlitaða múrsteinahúsinu. Hins vegar var sendiráðið tilbúið að greiða fyrir „ákveðnar framkvæmdir“ fyrir allt að 6.034 evrur.

Fulltrúi O‘Leary tjáði kærunefndinni að húsið hafi verið skoðað „nokkrum sinnum“ á meðan það var í útleigu hjá sendiráðinu og í hvert skipti hafi hitinn verið of hár. Hann segist hafa afhent sendiráðinu lista af skemmdum þegar Rússarnir óskuðu eftir að framlengja leigusamninginn í janúar 2020. Þegar þeir yfirgáfu húsið í ágúst sama ár kom í ljós að ekki var búið að ráðast í neinar framkvæmdir.

Um er að ræða eitt af nokkrum húsum í eigu O‘Leary sem staðsett eru á sendiráðssvæðinu í Dublin. Flest voru í niðurniðslu þegar O'Leary festi kaup á þeim og síðar gerð upp fyrir lúxusleigumarkaðinn.

Fyrr í mánuðinum hagnaðist O‘Leary um 23,3 milljónir evra, eða um 3,5 milljarða króna, fyrir skatta á kaupréttum á hlutabréfum Ryanair samkvæmt írska miðlinum Independent. Miðað við síðasta ársreikning, átti O‘Leary 44,1 milljón hluti í flugfélaginu í júní síðastliðnum sem eru um 690 milljóna evra að markaðsvirði í dag eða sem samsvarar 102 milljörðum króna.

Stikkorð: Michael O'Leary Ryanair