Ný skoðanakönnun sýnir að stuðningur almennings við Evrópusambandið hefur aukist verulega samhliða þeim efnahagsuppgangi sem hefur gert vart við sig á meðal Evrópuþjóða. Könnunin er vafalaust mikið fagnaðarefni fyrir marga stjórnmálamenn í Evrópu, en niðurstöður hennar birtast á sama tíma og tveggja daga leiðtogafundur ESB í Brussel hefst.

Stuðningur almennings á meðal aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) hefur aukist mikið á skömmum tíma og hefur ekki mælst hærri síðan árið 1994. Þetta kemur fram í viðamikilli skoðanakönnun - úrtakið var 29.000 manns - sem framkvæmdastjórn ESB lét framkvæma og var gerð opinber í gær. Könnunin birtist aðeins degi áður en forystumenn ríkjanna 27 sem eiga aðild að ESB hittast á leiðtogafundi sambandsins sem fer fram í dag og á morgun.

Að meðaltali mælist stuðningur almennings við aðild að ESB 57%, sem er fjórum prósentustigum meira heldur en niðurstöður sambærilegrar könnunar sýndu síðastliðið haust - en á Spáni, Þýskalandi, Póllandi og Bretlandi eykst stuðningurinn við Evrópusambandið jafnvel enn meira á tímabilinu.

Fylgni á milli aukinnar hagsældar og stuðnings við ESB?
Mestur er stuðningurinn við ESB í Hollandi - en almenningur þar í landi hafnaði stjórnarskrá sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2005 - þar sem 77% aðspurðra sögðust telja að aðild þjóðarinnar að ESB væri "gott mál." Næst á eftir Hollendingum komu Spánverjar (73%), Pólverjar (67%) og Þjóðverjar (65%). Þrátt fyrir að stuðningur almennings í Bretlandi hafi aukist um fimm prósentustig frá því í haust á síðasta ári, þá mælist hann engu að síður aðeins 39%. Það er einvörðungu í Ungverjalandi, Lettlandi og Austurríki sem almenningur er neikvæðari á aðild þjóðarinnar að ESB.

Þegar horft er til efnahagsmála í skoðanakönnuninni, þá vekur það sérstaka athygli að 99% Dana telja efnahagsástand landsins vera gott. Tæplega þrír af hverjum Þjóðverjum tóku undir þá fullyrðingu og sjötíu prósent Breta. Að meðaltali sögðust 52% íbúa í aðildarríkum ESB að efnahagsástand þjóðarinnar væri gott. Nýr forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, bíður hins vegar ærið verkefni við að reyna vekja upp bjartsýni á meðal almennings um efnahagshorfur landsins, en eingöngu 26% Frakka segja að efnahagsástand landsins sé gott.

Vaxandi stuðningur almennings við evrópusamrunann má að sumu leyti rekja til þess efnahagsuppgangs sem ríkt hefur í mörgum aðildarríkjum ESB - ekki síst í Þýskalandi - að því er fram kemur í frétt Financial Times. Almenningur hefur minni áhyggjur af atvinnuleysi auk þess sem fleiri en áður er reiðubúnir til að opna landamæri sín fyrir nýjum og fátækari ríkjum í Evrópu. Margot Wallström, hinn sænski yfirmaður samskiptamála framkvæmdastjórnarinnar, segir hins vegar að meira komi til heldur en efnahagsbati margra þjóða í Evrópu; aukinn stuðningur almennings við Evrópusambandið endurspeglar einnig þá staðreynd að stjórnmálaleiðtogar aðildarríkja ESB eru að gera einhverja hluti rétt.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.