Fyrirhugaðar reglubreytingar á birgðahaldi vöruhúsa sem geyma álbirgðir hafa verið settar á ís eftir að Rusal, stærsti álframleiðandi heims, vann dómsmál í Bretlandi gegn London MetalExchange (LME) sem er helsta miðstöð miðlunar á iðnaðarmálmum í heiminum. Reglubreytingarnar, sem kynntar voru í nóvember, fólu það í sér að skylda átti vöruhús sem geyma ál til að skila meira áli út en þau taka inn ef afhendingartími þess færi fram úr 50 dögum. Breytingarnar áttu að taka gildi síðastliðinn þriðjudag en Rusal var eina álfyrirtækið sem kærði þær og bar meðal annars fyrir sér að LME væri að brjóta á mannréttindum fyrirtækisins samkvæmt frétt Financial Times um málið.

Áttu að kanna aðrar leiðir

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að LME hefði ekki gert nægilegar ráðstafanir til að finna aðrar lausnir líkt og að banna eða að leggja takmarkanir á leigu sem greidd er til vöruhúsa fyrir málm sem þar liggur óhreyfður. Í tilkynningu frá Rusal segist Oleg Deripaska, forstjóri fyrirtækisins, fagna úrskurðinum. „Við hlökkum til að vinna náið með LME og öllum öðrum sem eiga hluta að máli, til að tryggja aukið gegnsæi þvert á markaðinn.“ Fulltrúar LME svöruðu því að þeir haldi áfram að trúa því að „ákæra Rusal væri tilhæfulaus að öllu leyti“ og eru sem stendur að leita aðstoðar við að kanna mögulega áfrýjun dómsins.

Samfara tilkynningu LME um reglubreytingarnar í nóvember hefur verðálag (e. premium) á áli farið ört hækkandi upp á síðkastið en margir greinendur, m.a. CRU, einn helsti greiningaraðili áliðnaðarins, rakið hækkunanina til þess að kaupendur hafi dregið álpantanir vegna reglubreytinganna sem margir töldu að myndi valda frekari verðlækkun. Of snemmt er að segja til um hver áhrif úrskurðarins verða en gengi hlutabréfa álframleiðandanna Alcoa og Century Aluminum hefur hækkað nokkuð eftir að dómurinn var kveðinn upp síðastliðinn fimmtudag. Álverð hefur einnig hækkað um 4% á sama tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .