Skuldatryggingarálag á ríki í Vestur-Evrópu hefur ekki verið hærra í rúma 20 mánuði, eða síðan í mars á síðasta ári. Meðaláhættuálag til fimm ára á ríki Vestur-Evrópu stóð í 197 punktum í lok gærdagsins. Á sama tíma virðist titringur á evrópskum mörkuðum hafa lítil áhrif á skuldatryggingarálaginu á Ísland sem virðist halda sjó.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Segir að fimm ára álagið á evruskuldir ríkissjóðs Íslands hafi staðið í 275 punktum í gær, sem er svipað og það hefur verið síðustu vikurnar.  „Ekki er langt um liðið síðan álagið á Ísland sveiflaðist upp með hverri einustu bylgju af áhættufælni sem leið í gegnum markaði, og eins og við höfum áður fjallað um má þennan stöðugleika meðal annars rekja til kaupa Seðlabanka Íslands á útistandandi evruskuldir ríkissjóðs. Það sem meira er um vert er að nú er fimm ára álagið á Ísland lægra en sambærilegt álag á Spán og er það í þriðja sinn sem það gerist, en það gerðist fyrst tíunda þessa mánaðar.“ segir í morgunkorni.

Segir að til vitnis um miklar hækkanir á álagi ríkja Vestur-Evrópu megi benda á að meðalálagið var 98 punktar í byrjun árs en er nú 197 punktar. „Þessa breytingu má fyrst og fremst rekja til hækkunar á skuldatryggingarálagi á gríska ríkið, það írska og svo það portúgalska enda hefur álagið á þessi ríki hækkað langmest í punktum talið af öllum ríkjum Vestur-Evrópu. Þannig stóð skuldatryggingarálagið á gríska ríkið í lok dags í gær í 1.006 punktum (10,06%) en það hefur ekki farið yfir 1.000 punkta múrinn síðan í lok júní síðastliðins. Jafnframt var álagið á Portúgal nálægt sínu hæsta gildi í gær, eða 458 punktar, og þá stóð álagið á írska ríkið í 527 punktum.“