Ölgerðin segir fréttir um að félagið hafi stillt starfsmönnum upp við vegg vegna styttingar vinnuvikunnar samkvæmt lífskjarasamningum vera fullar af rangfærslum.

Segist Ölgerðin harma það sem hún kallar rangfærslur Ragnars Þórs Ingólfssonar framkvæmdastjóra VR í kvöldfréttum Stöðvar 2, en biðst jafnframt afsökunar á því sem félagið kallar óþarflega harkalega orðað bréf til starfsmanna lagers og bílstjóra. Segist félagið hafa gengið lengra í styttingu vinnutíma starfsmanna en samið var um í Lífskjarasamningunum svokölluðu.

Markmiðið með aðgerðunum á dögunum segir félagið vera samræmingu innan deilda svo allir starfsmenn hverrar fyrir sig taki kjör og réttindi eins stéttarfélags, en af 25 bílstjórum Ölgerðarinnar séu sex í VR og 3 af 140 starfsmönnum verksmiðju og vöruhúss.

„Því miður var of harkalega orðað bréf afhent átta starfsmönnum og voru þeir beðnir afsökunar á orðalaginu á föstudag í síðustu viku.  Slíkt bréf er alls ekki í anda Ölgerðarinnar, sem ætíð hefur kappkostað að koma fram af virðingu við starfsfólk sitt og hefur til að mynda gefið starfsmönnum sínum frí á aðfangadag, gamlársdag og allan daginn 2. janúar um nokkurra ára skeið, sem er vel umfram alla samninga,“ segir í yfirlýsingu félagsins þar sem jafnframt segir að það sé rangt að félagið hafi reynt að koma sér undan skyldum sínum.

„Hið rétta í málinu er að Ölgerðin hefur um árabil verið með styttri vinnuskyldu í dreifingardeild fyrirtækisins, vöruhúsi og fjölda annarra deilda, töluvert styttri en Lífskjarasamningurinn kveður á um, og gildir einu hvort starfsmenn séu í Eflingu eða VR.  Ölgerðin hefur skriflega staðfestingu frá VR um að ofangreindir starfsmenn njóti nú betri kjara hvað vinnutíma og laun varðar en Lífskjarasamningurinn kveður á um. Því furðar Ölgerðin sig á rangfærslum framkvæmdastjóra VR.“