Kraftvélar hafa afhent þrjá nýja Iveco flutningabíla til Ölgerðar Egils Skallagrímssonar. Er þar um að ræða dráttarbifreið og vörubíla.

Dráttarbifreiðin er af gerðinni Iveco Stralis og býr yfir 500 hestafla vél, rafskiptingu, loftpúðafjöðrun og stóru ökumannshúsi með svefnaðstöðu fyrir ökumann.  Vörubílarnir eru hins vegar af gerðinni Iveco Eurocargo og eru með 14 tonna heildarþunga, 280 hestafla vélum og rafskiptingu.

Ölgerðin rekur í dag um 15 bíla í akstri og þjónustu við viðskiptavini sína. Að sögn Gunnlaugs Briem, framkvæmdastjóra vörustjórnunarsviðs Ölgerðarinnar, var Iveco valinn vegna margra sameiginlegra þátta. Þar hafi farið saman hagstæður þjónustusamningur, endursöluverð, búnaður bílanna og innkaupsverð.

Innflutningur nýrra vörubíla til landsins hefur aukist umtalsvert á árinu og hafa 119 nýir vöru- og sendibílar verið fluttir inn fyrstu átta mánuði ársins. Á sama tímabili í fyrra voru þeir 77 talsins og nemur aukningin því 55% milli ára.