Ölgerðin Egill Skallagrímsson, sem fagnar 100 ára afmæli sínu á þessu ári, fékk á miðvikudag jafnlaunavottun VR. Ölgerðin er þar með tíunda fyrirtækið hér á landi til að fá slíka vottun. Jafnlaunavottunin er markviss leið til að uppfylla kröfur nýs jafnlaunastaðals en fyrirtæki sem uppfylla hann geta fengið vottun um að launajafnrétti sé til staðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ölgerðinni.

Það var Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR og Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri VR, sem afhentu Októ Einarssyni, stjórnarformanni Ölgerðarinnar, jafnlaunavottunina á fundi með fulltrúum fyrirtækisins. „Það er ánægjulegt að við fáum jafnlaunavottunina á sjálfan kvenréttindadaginn 19. júní. Þetta er góð staðfesting á því að starfsfólki sem vinnur sömu vinnu eða jafnverðmæt störf sé ekki mismunað í launum," segir Elísabet Einarsdóttir, starfsmannastjóri Ölgerðarinnar.

„Þetta er hluti af samfélagsábyrgð Ölgerðarinnar að vinna að enn frekari jöfnuði og einnig að stuðla að starfsánægju,"segir Svanhildur Sigurðardóttir, samfélags- og samskiptastjóri Ölgerðarinnar.Jafnlaunavottun VR var kynnt þann 5. febrúar sl. og er ætluð fyrirtækjum og stofnunum sem vilja sýna svart á hvítu að launastefna þeirra og mannauðsstjórnun mismuni ekki konum og körlum. Þau fyrirtæki og stofnanir sem skrá sig til þátttöku skuldbinda sig til þriggja ára í senn.