Ölgerðin hefur fært upp afkomuspá fyrir fjárhagsárið 2022 um 500 milljónir króna. Ölgerðin gerir nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) verði á bilinu 4,1-4,4 milljarðar króna en áður gerði félagið ráð fyrir 3,6-3,9 milljarða króna EBITDA-hagnaði á tímabilinu, sem lýkur 28. febrúar 2023.

„Rekja má breytinguna fyrst og fremst til tveggja þátta. Annars vegar hefur sala á vörum fyrirtækisins á hótelum og veitingastöðum aukist, ekki síst vegna umtalsverðrar fjölgunar ferðamanna. Hins vegar er hlutdeild Ölgerðarinnar í bjórsölu hjá ÁTVR stærri en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir í tilkynningu Ölgerðarinnar til Kauphallarinnar.

Félagið gerir ráð fyrir að EBITDA-hagnaður á fyrri helmingi fjárhagsársins verði um 2,5 milljarðar, samanborið við 1,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

Uppfærð afkomuspá félagsins byggir á drögum að uppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði fjárhagsársins. Ölgerðin áréttar þó að rekstur félagsins sé árstíðabundinn og sveiflukenndur. Því sé ný afkomuspá háð áhættu- og óvissuþáttum sem geta þýtt að afkoman verði frábrugðin spá félagsins.

Árshlutareikningur Ölgerðarinnar fyrir tímabilið 1. mars 2022 – 31. ágúst 2022 verður birtur 11. október næstkomandi.