„Þetta er fúlt mál en ég trúi því að þessu verði snúið við,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, en endurálagning ríkisskattstjóra vegna öfugs samruna fyrirtækisins frá árinu 2008 til loka árs 2013 nemur rúmum einum milljarði króna. Ölgerðin kom af þessum sökum út í tapi á síðasta rekstrarári.

Andri segir í samtali við Viðskiptablaðið að útreikningur ríkisskattstjóra hafi komið fyrirtækinu í opna skjöldu enda sé milljarður högg í bækur Ölgerðarinnar. Hann er ósammála þessari niðurstöðu og hefur Ölgerðin skotið málinu til yfirskattanefndar.

Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku um endurálagningu ríkisskattstjóra í kjölfar Toyota-dómsins svokallaða sem féll í Hæstarétti í febrúar í fyrra. Í kjölfar dómsins fékk Toyota á Íslandi endurálagningu frá skattinum upp á 93 milljónir króna. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku sagði að Toyota á Íslandi hafi höfðað mál gegn Deloitte vegna ráðgjafar sem hafði mælt fyrir öfugum samruna. Önnur fyrirtæki eru sömuleiðis að undirbúa málssókn á hendur ráðgjöfum vegna þessa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ferðamenn flykkjast til Friðheima í Biskupstungum
  • Félög Jóns S. von Tetzchner töpuðu rúmlega 70 milljónum króna
  • Lög um hlutafélög einfölduð á næsta þingi
  • Fjárlagafrumvarpið leggst vel í atvinnulífið
  • Ferðaþjónusta blæs út
  • Tækninýjungar auka samkeppnisforskot fyrirtækja, að sögn Gests G. Gestssonar, forstjóra Advania.
  • Stofnandi auglýsingastofunnar TBWA segir fyrirtæki eiga að sýna reisn
  • Theodór hjálpar fyrirtækjum að hasla sér völl í útlöndum
  • Þriðja útibú Boot Camp opnar í Noregi
  • Bardagakappi stýrir hönnuninni hjá H:N Markaðssamskiptum
  • Huginn & Muninn eru á sínum stað auk Týs sem að þessu sinni fjallar um matarskattinn og fólkið sem veit ekki hvar það stendur í lífinu
  • Þá telur Óðinn að ríkissjóður verði skuldlaus árið 2511
  • Þá eru í blaðinu pistlar og margt, margt fleira