Ölgerðin hagnaðist um 521 milljón króna á á fyrsta fjórðungi fjárhagsárs félagsins, sem nær frá mars til maí. Til samanburðar skilaði félagið 326 milljóna hagnaði á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu Ölgerðarinnar sem var skráð í Kauphöllina fyrr í mánuðinum.

Afkoman var ívið betri en áætlanir Ölgerðarinnar gerðu ráð fyrir. Félagið segir að EBITDA-spá fyrir fjárhagsárið muni ná efri enda 3,6-3,9 milljarða króna bils sem kynnt var samhliða útboðinu í lok maí.

„Tekjuvöxturinn er góður og stærsti sölumánuður í sögu fyrirtækisins var á þessu tímabili. Sumarið 2021 var afar gott þegar litið var til sölutalna og við horfum bjartsýn til þessa sumars,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Vörusala Ölgerðarinnar jókst um 25% á milli ára og var yfir 9 milljarðar króna á tímabilinu. Félagið segir að þar muni um kaup dótturfélagsins Danól á viðskiptasamböndum Ásbjörns Ólafssonar, mikilli söluaukningu til hótela og veitingastaða auk þess sem Ölgerðin sé að styrkja stöðu sína á lykilmörkuðum með vörunýjungum og breyttu vöruframboði í drykkjarvöru.

Eignir Ölgerðarinnar námu 24,9 milljörðum í lok maí, eigið fé var 8 milljarðar og eiginfjárhlutfall því um 32%. Þá lækkuðu vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé um 434 milljónir króna á ársfjórðunginum.

Í skýrslu stjórnar í árshlutareikningnum segir Ölgerðin hafi formlega fengið afhenta nýja framleiðslulínuna frá vélaframleiðandanum Krones AG á tímabilinu. Hins vegar sé útlit fyrir að endurbætur á eldri framleiðslusal seinki vegna lengri pöntunar- og afhendingartíma.

Skatturinn staðfest endurákvörðun tolla

Fram kemur að Ölgerðinni hafi borist svar í lok maí frá Skattinum við mótmælum félagsins við endurálagningu á tollum vegna innflutnings á jurtaostum á árunum 2019-2020 að fjárhæð 151 milljón að viðbættu 50% álagi og dráttarvöxtum.

Sjá einnig: 227 milljónir aukalega vegna „jurtaosts“

Skatturinn tilkynnti félaginu að Danól bæri að greiða endurálagninguna með fullu álagi og dráttarvöxtum „og var það gert samdægurs“. Ölgerðin hafi þegar gert ráð fyrir þessari niðurstöðu í ársuppgjöri fyrir síðasta fjárhagsár. Félagið hefur ekki tekið ákvörðun um framhald málsins.