„Ölgerðin leitar stöðugt leiða til að lágmarka þau áhrif sem starfsemi fyrirtækisins hefur á umhverfið. Þannig hefur Ölgerðin minnkað orkunotkun sína við alla framleiðslu, takmarkað umbúðanotkun, aukið sorpflokkun og gripið til margvíslegra aðgerða til að gera sölu og dreifingu vara fyrirtækisins umhverfisvænni en áður. Stefna Ölgerðarinnar um lágmörkun umhverfisáhrifa leiddi til þess að á síðasta ári minnkaði kolefnisspor fyrirtækisins um 34%," segir í tilkynningu frá Ölgerðinni.

Hluti af umhverfisstefnu Ölgerðarinnar er að kolefnisjafna með öllu starfsemi fyrirtækisins hér á landi. Nú hefur verið undirritaður samningur um að kolefnisjafna allan rekstur Ölgerðarinnar, allt árið í kring, í samstarfi við Kolvið og Votlendissjóð.

„Með aðgerðum um endurheimt votlendis og gróðursetningu trjáa ætlar Ölgerðin að jafna allan þann útblástur sem verður við starfsemi fyrirtækisins. Kolefnisjöfnunin felst í því annars vegar að Votlendissjóður gerir samninga við landeigendur um að endurheimta votlendi á þeirra jörðum og Ölgerðin greiðir þann framkvæmdakostnað sem af því hlýst. Landeigendur skuldbinda sig á móti að raska ekki hinu endurheimta landi í að minnsta kosti 10 ár. Hins vegar felst kolefnisjöfnunin í því að Kolviður gróðursetur 9720 tré árið 2019 fyrir Ölgerðina við Úlfljótsvatn, Skálholt og að öllum líkindum á Mosfellsheiði síðar meir. Með þessum aðgerðum mun rekstur Ölgerðarinnar ekki skilja eftir sig nein kolefnisfótspor."

Auk þess er það skýr umhverfisstefna hjá Ölgerðinni að halda áfram að vinna í átt að umhverfisvænni rekstri en það er markmið Ölgerðarinnar að komast enn nær sjálfbærni og minnka losun frá rekstri fyrirtækisins.