Ölgerðin stefnir á skráningu í Kauphöllina á næstu tveimur árum. Þetta segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í viðtali við Morgunblaðið . Hann segir fyrirtækið hafa sett sér þetta markmið fyrir sex árum.

„Það er verið að undirbúa skráningu í Kauphöll árið 2022 eða 2023. Þetta er 108 ára gamalt fyrirtæki með traustan rekstur en jafnframt vaxtarmöguleika. Við trúum því að við eigum fullt erindi inn á markað en þar höfum við greiðara aðgengi að fjármagni. Við höfum hug á því að stækka með samrunum og með skráningu tel ég að svoleiðis viðskipti geti gengið greiðar fyrir sig,“ er haft eftir Andra Þór.

Spurður um hvaða fyrirtæki Ölgerðin vilji taka yfir, segir hann að helst sé horft til hraðsöluvara á matvörumarkaðnum en bætir við að Ölgerðin sé einnig stór á sviði snyrtivara. Andri telur að hægt sé að innleysa talsverða samlegð með samrunum vegna allra þeirra grunninnviða sem fyrirtækið búi yfir.