Fyrsta skóflustunga að nýju 1.700 fermetra framleiðsluhúsnæði Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar hf. hefur verið tekin, en fjárfesting vegna nýja húsnæðisins er vel á annan milljarð króna. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu þar sem jafnframt segir að „með þessari viðamiklu framkvæmd sýnir Ölgerðin skýrt vilja sinn til að halda framleiðslu sinni áfram hér á landi um ókomna framtíð.“

„Vöxtur Ölgerðarinnar hefur verið mikill síðustu ár og afkastageta okkar til framleiðslu var orðin of takmörkuð. Nýtt framleiðsluhúsnæði er lausnin en með því getum við ekki aðeins aukið framleiðslu okkar, heldur jafnframt gefið nýsköpun byr undir báða vængi og sýnt svart á hvítu að við ætlum okkur að vera áfram íslenskt framleiðslufyrirtæki í fremstu röð," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í tilkynningu.

Ölgerðin
Ölgerðin

Nýja framleiðsluhúsnæðið verði plastlaust, ekkert plast notað í ytri pakkningar og því muni Ölgerðin spara fleiri tonn af plasti á hverju ári og verða þannig enn umhverfisvænni en áður. Nýja húsnæðið gefi einnig, eins og áður sagði, aukið svigrúm til nýsköpunar.

„Við getum í nýja húsnæðinu verið mun sveigjanlegri en áður í pakkningum til að svara eftirspurn neytenda og leitt áfram nýsköpun á þessu sviði," segir Andri Þór.

„Nýja húsið verður byggt úr íslensku límtré og ánægjulegt að geta stutt íslenskan iðnað á þessu sviði. Húsið mun tengjast núverandi húsnæði og sérkenni þess, stórar gosdrykkjadósir, verða á nýju byggingunni. Reiknað er með að hundruð starfsmanna muni á næstu 12 mánuðum koma að byggingu hússins, sem mun kosta vel á annan milljarð króna,“ segir að lokum í fréttatilkynningunni.