Samkomulag hefur náðst um kaup á 69% hlut í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. Seljendur eru Eignarhaldsfélagið Þorgerður ehf., F-13 ehf og Lind ehf. Fyrir kaupendum fara framtakssjóðirnir Akur fjárfestingar slhf. og Horn III slhf. ásamt hópi einkafjárfesta. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Virðingu.

Haft er eftir Hermanni Má Þórissyni, framkvæmdastjóra Horns III, að Ölgerðin sé afar spennandi fyrirtæki að bætast við í hóp eigenda félagsins.

„Núverandi stjórnarformaður Ölgerðarinnar, Októ Einarsson og forstjóri félagsins, Andri Þór Guðmundsson eru ekki þátttakendur í sölunni og munu því áfram eiga stærsta einstaka hlutinn í félaginu í gegnum félag sitt, OA Eignarhaldsfélag ehf. Í kjölfar viðskiptanna stefna eigendur að því að auka hlutafé Ölgerðarinnar til að styðja við innri vaxtaráform félagsins,“ segir í tilkynningunni.

Auður I, fagfjárfestasjóður í rekstri Virðingar, hefur farið fyrir stærsta hluthafa Ölgerðarinnar frá því árið 2010 þegar Eignarhaldsfélagið Þorgerður ehf. keypti hlut í félaginu. Félagið hefur nú selt allan sinn eignarhlut.

Ráðgjafar kaupendahópsins í fyrrgreindu söluferli og í viðskiptunum voru Íslandsbanki og Lagahvoll.

Fyrirtækjaráðgjöf Virðingar hafði umsjón með söluferli Ölgerðarinnar fyrir hönd hluthafa og var ráðgjafi seljenda. BBA Legal veitti seljendum lögfræðiráðgjöf í tengslum við viðskiptin, segir að lokum í tilkynningunni. Samningurinn sem hefur verið undirritaður er þó gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.