Ölgerðin Egill Skallagrímsson er komin í söluferli. Eigendur fyrirtækisins hafa óskað eftir tilboðum í fyrirtækið frá innlendum og erlendum fjárfestum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Núverandi eigendur höfðu gefið það út að þeir ætluðu að skrá félagið á hlutabréfamarkað. Greint er frá því að í ljós hafi komið mikill áhugi fyrir beinum kaupum í félaginu og hafi eigendur ákveðið að fylgja því eftir og formlegt söluferli er að fara af stað.

Við síðasta uppgjör Ölgerðarinnar sagði forstjóri félagsins, Andri Þór Guðmundsson, að þetta væri besta afkoma Ölgerðarinnar frá upphafi. Velta fyrirtækisins var þá 19,6 milljarðar króna og EBITDA var 1.642. Hagnaður fyrirtækisins fyrir tekjuskatt var 600 milljónir króna.