Ölgerð Egils Skallagrímssonar ætlar að verja hundrað milljónum króna í samfélagsverkefni í tilefni af 100 ára afmæli fyrirtækisins. Í tilkynningu frá Ölgerðinni segir að fyrir hundrað árum í dag hafi Tómas Tómasson stofnað fyrirtækið í kjallara Þórshamars við Templarasund. Fyrirtækið hafi þá verið starfrækt í tveimur herbergjum í kjallara hússins, sem nú er í eigu Alþingis. Í dag er starfsemi Ölgerðarinnar í 20.000 fermetra húsnæði við Grjótháls.

Á fréttamannafundi í Þórshamri í dag tilkynntu Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri, að fyrirtækið ætlaði að beita sér sérstaklega í ýmsum samfélagsverkefnum á afmælisárinu.

Októ sagði á fundinum að Ölgerðin væri rótgróið fyrirtæki sem hafi frá upphafi lagt áherslu á að vera í góðu sambandi við þjóðina og að vilji sé til að þakka þjóðinni fyrir samfylgdina síðustu hundrað árin. Andri tók í sama streng og sagði það hluta af starfi fyrirtækisins að sinna samfélaginu. Á afmælisárinu muni fyrirtækið vinna að hundrað verkefnum sem snúi að ábyrgð þess gagnvart samfélaginu og veita hundrað milljónum króna í margvísleg verkefni. Verkefnunum verður skipt í fjóra flokka og verður árangur mældur og gefinn út opinberlega á hverju ári.

Þá var í dag opnaður söguvefur Ölgerðarinnar en þar er farið yfir 100 ára sögu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar í máli og myndum. Vefinn má finna hér .