Stærsti ferðavefur heims, Trip Advisor hefur veitt Ölgerð Egils Skallagrímssonar sérstaka viðurkenningu annað árið í röð fyrir sérsniðna dagskrá fyrir erlenda ferðamenn um íslenska bjór- og vínmenningu.

Dagskráin, sem haldin er í Gestastofu ölgerðarinnar, ber yfirskriftina „Taste the Saga“ en hún er aðeins eitt þeirra námskeiða sem boðið er upp á í Gestastofunni.

Þar rekur Ölgerðin einnig sinn þekkta bjórskóla auk Vínskóla, barþjónanám og fleira. Grayline sér um söluna á „Taste the Saga“ sem nú haldið daglega vegna mikilla vinsælda, í stað tvisvar í viku áður.

Gestastofan er nýsköpun

„Það er frábær árangur að fá þessa miklu viðurkenningu einu sinni, hvað þá annað árið í röð, enda kemur hún beint frá notendunum, gestunum, sem fara af eigin frumkvæði og verðlauna okkur með þessum hætti,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

„Ég hef sagt það áður og ítreka að Gestastofan okkar er í raun nýsköpun í rótgrónu fyrirtæki sem teygir anga sína inn í ferðamennsku á Íslandi.“