Eigendur Sólar ehf. hafa selt fyrirtækið til Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf. Kaupsamningur er gerður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun. Arev var ráðgjafi seljenda við söluna. Eigendur Sólar munu framvegis einbeita sér að rekstri Emmessíss hf. sem þeir keyptu sl. sumar. Allir starfsmenn Sólar munu starfa áfram hjá fyrirtækinu og framleiðslan verður fyrst um sinn á sama stað og verið hefur, að Lynghálsi 7 í Reykjavík.

Í fréttatilkynningu vegna kaupanna segir: Sól ehf. hóf starfsemi fyrir rúmum þremur árum og framleiðir ferska ávaxtasafa. Sól ehf. var í eigu Arev N1 einkafjármagnssjóðs og stofnenda félagsins, Snorra Sigurðssonar, Hrafns Haukssonar og Leifs Grímssonar. Snorri, sem verið hefur framkvæmdastjóri Sólar frá upphafi, segir að eigendurnir hafi fengið gott tilboð í fyrirtækið sem þeir hafi ekki getað hafnað. „Við höfum lagt gríðarlega vinnu í uppbyggingu Sólar og náð góðri markaðsstöðu enda gamalgróið og traust vörumerki. Með kaupunum á Emmessís í vor opnuðust hins vegar ný tækifæri í rekstrinum sem við viljum einbeita okkur að. Það er eftirsjá að Sól en við höfum fulla trú á að framleiðslan og vörumerkið muni dafna í höndum nýrra eigenda sem hafa áratuga reynslu af framleiðslu og sölu drykkjarvara.“

Í Tilkynningunni er haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar: „Með kaupunum á Sól fáum við góða viðbót við vöruúrval Ölgerðarinnar. Vörumerkið er traust og á sér sterka hefð i hugum íslenskra neytenda. Vörur frá Sól eru þekktar fyrir mikil gæði og Ölgerðin hefur einmitt alltaf sett gæðin í öndvegi við framleiðslu á sínum vörum. Sólarmenn hafa unnið frábært uppbyggingarstarf sem Ölgerðin mun byggja á til áframhaldandi vaxtar.“

Sjóðurinn Arev N1 er í eigu eignarhaldsfélagsins Arev og Icebank . Sjóðurinn fjárfestir í óskráðum vaxtarfyrirtækjum, aðallega á sviði heildsölu, smásölu og þjónustu. Áhersla er lögð á að sjóðurinn sé leiðandi og mótandi fjárfestir sem tekur virkan þátt í rekstri og uppbyggingu fyrirtækja sinna. Arev verðbréf sinna eignastýringu fyrir sjóðinn. Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, fjárfestingastjóri sjóðsins, kveðst ánægð með söluna enda falli hún vel innan þess tímaramma sem sjóðurinn hefur sett sér fyrir fjárfestingar sínar.