Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. hefur fengið umboð fyrir nokkra af þekktustu vínframleiðendum heims. Með tilkomu þessara umboða verður Ölgerðin eitt öflugasta fyrirtæki landsins í innflutningi léttra og sterkra vína. Vörumerkin sem um ræðir eru Freixenet-freyðivín, léttvín frá Linderman's, og Penfolds, Hennessy-koníak og kampavín frá hinum heimsþekktu framleiðendum Dom Perignon, Moet & Chandon.

Auk fyrrgreindra umboða fékk Ölgerðin nýlega umboð fyrir vín sem munu vafalítið falla íslenskum vínunnendum vel í geð - Stellenboch frá Suður-Afríku, Vina San Pedro frá Chile, Castel frá Frakklandi og The Wine Group frá Bandaríkjunum. Þrír síðastnefndu framleiðendurnir eru meðal þeirra stærstu í heimi en franski og cilenski framleiðandinn eru með leiðandi markaðshlutdeild hvor í sínu landi og The Wine Group er með næst mestu markaðshlutdeild í Bandaríkjunum.

Söluaukning í léttvínum

Fyrstu átta mánuði þessa árs varð mikil aukning í sölu léttvína sem flutt eru inn á vegum Ölgerðarinnar en miðað er við sama tímabil í fyrra. Auk þess hefur markaðshlutdeild sterkra vína sem Ölgerðin flytur inn aukist þrátt fyrir almennan samdrátt í sölu sterkra vína í ÁTVR.

Fyrstu átta mánuði þessa árs jókst salan á ítölskum vínum frá Masi um 149,6% og á áströlskum vínum frá Rosemount um 92,6%. Þá jókst sala á ítölsku Gancia-vínunum um 29,9%, á vínum frá Conde De Valdemar frá Spáni um 67,1%. Loks jókst sala vína frá suður-afríska framleiðandanum Boland Kelder um 45,8%.

Fyrstu átta mánuðina fagnaði Ölgerðin einnig aukinni markaðshlutdeild velþekktra vörumerkja í sterkum vínum. Gerðist það þrátt fyrir ríflega 10% samdrátt í sölu sterkra vína í ÁTVR. Smirnoff-vodka er nú með um 35% markaðshlutdeild, Gordons-gin um 38,5%, Tanqueray-gin um 7%, Bailey's-líkjör um 41% og Grand Marnier-líkjör um 68,8% markaðshlutdeild. Allar þessar tegundir eru með mesta markaðshlutdeild í viðkomandi flokki sterkra vína utan Tanqueray-gin sem er í þriðja sæti gintegunda.