Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. hefur hlotið forvarnarverðlaunin Varðbergið. Verðlaunin hlýtur árlega viðskiptavinur Tryggingamiðstöðvarinnar sem þykir skara fram úr á sviði forvarna gegn óhöppum og slysum. TM veitti jafnframt fyrirtækjunum Eykt hf. og Skeljungi hf. sérstaka viðurkenningu fyrir forvarnir.

Í tilkynningu vegna verðlaunanna segir að Ölgerðin hafi um árabil unnið mjög vel að forvörnum. Sérstakt átak var gert til að fækka óhöppum innan bílaflotans á síðasta ári og unnu Ölgerðin og TM saman að verkefninu. Saga System aksturstölva frá ND var notuð sem hjálpartæki. Tölvan sýnir aksturslag á rauntíma og gefur einkunn út frá frávikum í akstri. Árangurinn lét ekki á sér standa. Ökutækjatjónum fækkaði um 60% sem er mjög gott miðað við stóran ökutækjaflota. Forsvarsmenn Ölgerðarinnar eru vel meðvitaðir um mikilvægi forvarna á öllum sviðum að mati sérfræðinga TM.

Eykt og Skeljungur hlutu sérstakar viðurkenningar frá TM. Eykt leggur mikla áherslu á forvarnir. Innan fyrirtækisins starfar öryggisstjóri, gefin hefur verið út öryggishandbók og haldnir eru öryggisfundir með öllum undirverktökum. Þessu til viðbótar er utanaðkomandi eftirlitsaðili látinn fara reglulega yfir vinnusvæði og taka út öryggisatriði sem öryggisstjóri lætur lagfæra strax ef þarf. Þá er Eykt með samning um heilsuvernd við InPro-heilsuvernd ehf. með það að markmiði að stuðla að bættu heilbrigði og vellíðan á vinnustaðnum.

Tjónatíðni hjá Skeljungi hefur verið lág um árabil enda eru forvarnir hafðar í öndvegi. Meðal þess sem er til fyrirmyndar hjá Skeljungi, að mati sérfræðinga TM, er sú áhersla sem lögð er á aðbúnað og öryggismál innan fyrirtækisins. Nýliðar hjá Skeljungi eru teknir í markvissa þjálfun auk þess sem góðar leiðbeiningar er að finna inni á heimasíðu fyrirtækisins hvað varðar umgengni og öryggi þeirra efna sem það selur. Skeljungur hefur enn fremur skýra umhverfis- og öryggisstefnu sem vel er fylgt eftir.

„Við hjá Ölgerðinni leggjum mikla áherslu á forvarnarstarf og gæði. Að undanförnu höfum við unnið sérstaklega að því að fækka óhöppum sem tengjast bílaflotanum og árangurinn hefur verið ótrúlega góður. Okkur þykir mjög vænt um þessa viðurkenningu frá TM. Hún er okkur mikil hvatning,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

„Það skiptir miklu máli að allir innan fyrirtækisins frá forstjóra og niður séu meðvitaðir um vægi forvarna og leggist á eitt um að ná árangri. Með því móti eru mun meiri líkur á að uppskeran verði góð. Þetta hafa starfsmenn Ölgerðarinnar sýnt og sannað. Það er okkur ánægja að afhenda þeim Varðbergið,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM í tilkynningunni.